2. janúar 2025
8. október 2024
Vigdís lýkur störfum hjá Listahátíð
Vigdís Jakobsdóttir lauk störfum sem listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík 30. september síðastliðinn eftir átta farsæl ár í starfi.
Leiðarljós Vigdísar í starfi var að listir og menning væru ekki forréttindi fárra heldur réttur allra. Þetta voru sannarlega ekki orðin tóm heldur lét hún verkin tala. Á starfstíma sínum leiddi hún mikilvæga stefnumörkun fyrir hátíðina með áherslu á aðgengis- og umhverfismál og hreif samstarfsfólk sitt með sér í að vinna að þessari sýn. Hún leitaði sífellt nýrra leiða til að færa sem flestum menningarviðburði í hæsta gæðaflokki og lagði mikla áherslu á að listafólk og listviðburðir á hátíðinni endurspegluðu samfélagið í allri sinni breidd og fjölbreyttu fegurð.
Vigdís sýndi mikinn metnað, hugrekki og hugmyndaauðgi í starfi. Þessir eiginleikar hennar skinu skært í heimsfaraldrinum 2020-2021 þegar dagskrá Listahátíðar 2020 var dreift yfir rúmt ár og viðburðum var hrint í framkvæmd eftir því sem samkomutakmarkanir leyfðu. Vakti það mikla athygli þegar tilkynning barst frá Listahátíð um að henni væri ekki aflýst, ólíkt fjölda hátíða og viðburða sem aflýst var á þessum tíma. Undir lok árs 2020 voru almenningi færðar listagjafir um land allt en það framtak gladdi bæði landann sem og listafólk sem hafði vart getað komið fram svo mánuðum skipti.
Stjórn og framkvæmdastjóri Listahátíðar þakka Vigdísi fyrir gjöfult og gæfuríkt samstarf og fyrir að sýna metnað, kjark og hlýju í starfi. Við óskum henni alls hins besta í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur og þökkum það góða veganesti sem hún skilur eftir hjá hátíðinni.
Ljósmyndin af Vigdísi Jakobsdóttur var tekin af Golla fyrir Heimildina.