
18. mars 2025
30. maí -14. júní 2026
18. mars 2025
Listahátíð í Reykjavík óskar eftir hugmyndum að verkefnum frá listafólki sem hefur áhuga á að taka þátt í dagskrá hátíðarinnar 30. maí – 14. júní 2026. Við tökum á móti hugmyndum á öllum vinnslustigum en til að koma til álita er mikilvægt að stærri og fjárfrekari verkefni séu komin áleiðis með eigin fjármögnun.
Umfjöllunarefni Listahátíðar í Reykjavík 2026 eru tengsl. Hvernig tengjumst við sem samfélag umheiminum? Hvernig tengjumst við hvert öðru í okkar eigin samfélagi og umhverfi?
Við viljum tengja listafólk og áhorfendur, ólíkar listgreinar, landshluta og menningarheima. Tengsl hafa aldrei verið jafn mikilvæg.
Listahátíð leggur áherslu á frumsköpun og viðburði sem höfða til fjölbreyttra áhorfendahópa. Listahátíð er ekki bundin við höfuðborgarsvæðið og geta viðburðir farið fram um allt land.
List og menning eru ekki forréttindi fárra heldur réttur allra.
Við viljum heyra hugmyndir frá ólíku listafólki, að verkefnum sem henta í hefðbundin eða óhefðbundin rými og viljum að hátíðin endurspegli margbreytileika samfélags okkar.
Tillögur skulu sendar inn með því að fylla út rafrænt eyðublað hér.
Skilafrestur er til miðnættis 15. apríl 2025.
Ef spurningar vakna varðandi umsóknareyðublaðið eða ferlið, vinsamlegast sendið okkur línu á artfest@artfest.is.
Ljósmynd: Dansarar úr Íslenska dansflokknum sýna úr verkinu While in battle I am free, never free to rest eftir Hooman Sharifi á opnun Listahátíðar 1. júní 2024 í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.
Ljósmyndari: Juliette Rowland