2. janúar 2025
2. janúar 2025
Tinna framkvæmdastjóri Listahátíðar
Ákveðið hefur verið að ráða Tinnu Grétarsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík til næstu fjögurra ára.
Tinna lauk meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2023 og BA gráðu í samtímadansi frá Listaháskólanum í Osló árið 1998. Hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Dansverkstæðisins frá árinu 2012 og var verkefnastjóri viðburða á síðustu Listahátíð þar sem hún meðal annars sá um skipulagningu vinnu sjálfboðaliða. Á árunum 2012 - 2022 var Tinna listrænn stjórnandi sviðslistahópsins Bíbí & Blaka og hefur sinnt stundakennslu við sviðslistabraut Listaháskóla Íslands frá árinu 2016. Á árunum 2023-2024 sat Tinna í starfshóp um nýja sviðslistastefnu á vegum Menningarmálaráðuneytisins.
“Listahátíð í Reykjavík er einstök hátíð sem hefur fært okkur magnaða viðburði, stóra sem smáa í yfir 50 ár. Að fá að taka þátt í skipulagningu og undirbúningi hátíðarinnar eru forréttindi og ég er ótrúlega þakklát Láru Sóleyju og stjórn hátíðarinnar fyrir tækifærið” segir Tinna.
„Ég hlakka mikið til samstarfsins við Tinnu en reynsla hennar af rekstri, áætlanagerð, styrkumsóknum og starfsmannahaldi mun nýtast afar vel í starfi framkvæmdastjóra. Hún hefur mikilvæga innsýn í menningarlíf þjóðarinnar og tengingar við íslenskt og erlent listafólk. Framundan eru spennandi verkefni þar sem stefna hátíðarinnar verður endurskoðuð og drög lögð að dagskrá næstu hátíðar sem fram fer 30. maí – 14. júní 2026. Ég veit að í sameiningu munum við leggja okkur fram um að eiga í farsælu samstarfi við framúrskarandi listafólk og færa landsmönnum einstök tækifæri til þess að njóta framsækinna listviðburða,” segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, listrænn stjórnandi.
Tinna tekur við stöðunni af Fjólu Dögg Sverrisdóttur sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra frá árinu 2017 með framúrskarandi árangri og þakka listrænn stjórnandi og stjórn Listahátíðar Fjólu fyrir allt hennar góða starf í þágu hátíðarinnar.
Umsóknarfrestur um starf framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík rann út 12. desember síðastliðinn og sóttu alls 27 einstaklingar um starfið.