12. desember 2024
11. janúar 2024
Nýir Klúbbstjórar Listahátíðar
Með hækkandi sól horfum við með vaxandi tilhlökkun til næstu hátíðar og nú eru nýir Klúbbstjórar Listahátíðar í óða önn að stilla upp leiftrandi dagskrá þar sem öll ættu að finna eitthvað sem kitlar. Hið dýnamíska tvíeyki Aude Busson, sviðslistakona, og drag-goðsögnin Siggi Starr stýra skútunni í ár og hafa einsett sér að færa Klúbbgestum fjölda lifandi og óvæntra viðburða. Líkt og á síðustu tveimur hátíðum er aðsetur Klúbbsins í hjarta miðborgarinnar í hinu sögufræga húsi Iðnó. Fylgist með Listahátíð og Klúbbi Listahátíðar á Instagram og á Facebook til að fá glóðvolgar fréttir, fræðast um listafólk hátíðarinnar og skyggnast á bak við tjöldin.
Klúbbur Listahátíðar hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna á Listahátíð og er órjúfanlegur hluti hennar. Í Klúbbnum er boðið upp á fjölbreytta dagskrá alla hátíðardagana, frá 1. -16. júní, hvort sem gesti þyrstir í safaríkar umræður, funheita listviðburði, vinnusmiðjur með listafólki eða einfaldlega að dansa fram á nótt
Í Klúbbnum er hvatt til lýðræðislegrar virkni og þátttöku í listum og þar eru allir viðburðir ókeypis. Auk þess að hýsa fjölbreytta listviðburði, yfirtökur ólíkra listhópa og spennandi tilraunir er Klúbburinn ekki síður vettvangur samtals og óformlegri tækifæra til að tengjast, kynnast nýju fólki og hugmyndum.
Aðgangur í Klúbbinn er alltaf ókeypis og öll eru velkomin!
Fylgið okkur á samfélagsmiðlum