1.-16. júní 2024

15. nóvember 2024

Katrín Jakobsdóttir nýr formaður stjórnar

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík fór fram í Safnahúsinu fimmtudaginn 14. nóvember og var afar vel sóttur. Aðild að fulltrúaráði eiga allar helstu menningarstofnanir landsins og fagfélög listafólks.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri tók við formennsku fulltrúaráðs af Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarráðherra en ráðherra og borgarstjóri gegna formennsku og varaformennsku til skiptis. 

Margrét M. Norðdahl, sem setið hefur í stjórn Listahátíðar fyrir hönd borgarstjóra frá árinu 2014 vék úr stjórn og voru henni þökkuð vel unnin störf í þágu hátíðarinnar með þéttu lófataki. Nýr fulltrúi borgarstjóra í stjórn er Katrín Jakobsdóttir og verður hún formaður hennar næstu tvö árin en fráfarandi formaður, Sigtryggur Magnason, tekur við varaformennsku og situr áfram sem fulltrúi ráðherra. Tryggvi M. Baldvinsson situr áfram í stjórn Listahátíðar fyrir hönd fulltrúaráðsins. 

Á fundinum voru að venju flutt nokkur erindi sem gefa mynd af síðasta ári í starfi Listahátíðar.

Formaður stjórnar, Sigtryggur Magnason gaf skýrslu stjórnar.

Vigdís Jakobsdóttir fráfarandi listrænn stjórnandi gaf skýrslu um nýliðna Listahátíð 2024 sem var jafnframt síðasta hátíð Vigdísar. Hátíðin var einstaklega vel sótt í ár og að henni komu um 900 listamenn. Vigdís nýtti tækifærið til að þakka fulltrúaráði fyrir ómetanlegt samstarf í gegnum árin en Vigdís hóf störf hjá hátíðinni árið 2016 og var endurráðin árið 2020.

Framkvæmdastjóri Listahátíðar, Fjóla Dögg Sverrisdóttir kynnti ársreikning 2023 ásamt uppgjöri hátíðar og fjárhagsáætlun 2024-2025. Fjárhagsstaða hátíðarinnar er góð og uppgjör hátíðarinnar í ár var í takt við áætlanir.

Nýráðinn listrænn stjórnandi Lára Sóley Jóhannsdóttir flutti erindi um sína framtíðarsýn fyrir hátíðina og sagði meðal annars:

„Það er mér mikill heiður að fá tækifæri til þess að vinna að Listahátíð í Reykjavík og byggja á þeirri þrotlausu, óeigingjörnu og framúrskarandi vinnu sem einkennt hefur hátíðina. Fyrst og fremst vil ég sjá hátíð þar sem við öll upplifum að við tilheyrum opnu, umvefjandi og framsæknu samfélagi þar sem listir fá að dýpka og víkka okkur sem manneskjur.”

Borgarstjóri gaf bæði Margréti M. Norðdahl og Vigdísi Jakobsdóttur blóm í þakkarskyni fyrir frábærlega vel unnin störf í þágu hátíðarinnar og menningarlífs borgarinnar. Tóku fundargestir undir orð hans og fögnuðu þeim vel.

Myndaalbúm