30. maí -14. júní 2026

14. mars 2024

Alþjóðleg hátíð á Siglufirði

Handhafi Eyrarrósarinnar 2023-24

Annað hvert ár veitir Listahátíð í Reykjavík, í samstarfi við Byggðastofnun og Icelandair, verðlaun fyrir framúrskarandi menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Handhafi Eyrarrósarinnar 2023-24 er menningarstarfsemin í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Í rúman áratug hefur Aðalheiður S. Eysteinsdóttir leitt starfsemina í Alþýðuhúsinu sem hefur sannarlega haft gildi bæði fyrir nærsamfélagið og íslenskt menningarlíf. Í húsinu blómstrar víðtækt menningarstarf. Aðaláherslan er á myndlist en undir hatti starfseminnar rúmast einnig ýmis skapandi samstarfsverkefni, þrjár stórar listahátíðir, jaðartónlistarviðburðir, listasmiðjur og vettvangur þar sem kraftmikið fólk getur hrundið eigin hugmyndum í framkvæmd.

Dagana 7. -9 júní mun Alþýðuhúsið standa að alþjóðlegri hátíð, INTO Festival. Siglufjörður mun iða af sköpunarkrafti alla hátíðardagana en á dagskránni eru meðal annars myndlistarsýningar, gjörningar, útilistaverk, tónleikar og ljóðalestur. Viðburðirnir fara fram bæði í Alþýðuhúsinu og víðs vegar um bæinn, inni og úti. Aðgangur að öllum viðburðum er ókeypis.

Ítarlega dagskrá og upplýsingar um listafólkið má nálgast á heimasíðu Listahátíðar og síðu Alþýðuhússins.