Mahler nr. 3
Eitt af stórvirkjum sígildrar tónlistar
Hið mikilfenglega stórvirki Mahlers fær að hljóma í Hörpu í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þriggja kóra og einsöngvara. Þriðja sinfónía Mahlers er heill heimur út af fyrir sig – í senn óður til náttúrunnar og djúphugul könnun á mannlegu hlutskipti. Tónskáldið samdi verkið við bakka Attersee í Austurríki þar sem svipmyndir af veðurfari, gróðri og dýralífi fléttuðust inn í tónsmíðarnar. „Það er sem straumur sköpunarinnar hafi hrifið mig með sér!“ ritaði tónskáldið í bréfi. Áheyrendur berast með sama straumi í heillandi ferðalag. Hinn stórbrotni fyrsti þáttur hefst á sumarkomu, þeir næstu eru helgaðir lifandi verum – blómunum á enginu, dýrum skógarins og sjálfum manninum – en síðustu tveir þættirnir lúta að upphafnari fyrirbærum: englunum og ástinni. Lokaþátturinn er kærleiksríkur þakklætissöngur til alls heimsins.
Sinfónían krefst óvenjustórrar hljómsveitar, kóra og einsöngvara. Einsöngvari í Eldborg er þýski messósópraninn Christina Bock sem er þekkt fyrir sérlega blæbrigðaríka túlkun og hefur komið fram víðsvegar um Evrópu. Kórarnir Vox Feminae, Aurora og Stúlknakór Reykjavíkur taka þátt í flutningi verksins. Hljómsveitarstjóri er Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Aðgengi
Mjög gott hjólastólaaðgengi í Hörpu. Tónmöskvi er í miðasölu.
Auka upplýsingar um aðgengi á viðburðinum eru hér.
Stoppistöðin Harpa er næst Hörpu en einnig er stoppistöðin Lækjartorg nálægt.