1.-16. júní 2024

12 lokalög

15. JÚN
12:00
NORÐURLJÓS, HARPA

Þjóðin á svið í Hörpu!

12 lokalög er umfangsmesta verkefni Listahátíðar í ár enda stíga þar rúmlega þrjátíu manns á svið. Þau eru ekki leikarar heldur vinnandi fólk úr íslensku samfélagi. Allt frá hádegi til miðnættis mætir alls konar fólk á vakt, sinnir sínum störfum, segir okkur frá vinnunni og sjálfu sér um leið. Málari málar vegg, söngvari tekur lagið, stjörnufræðingur segir frá lögmálum himingeimsins, ljósmóðir leiðir okkur í allan sannleika um fæðingu nýs lífs …

Í þessu óvenjulega, stórskemmtilega og áhrifaríka verki býðst okkur að upplifa fjölbreytta mannlífsflóru Íslands í dag, hitta fólk sem verður ekki endilega á leið okkar í hvunndeginum, velta fyrir okkur tímanum og tilverunni og skyggnast inn um ótal margar dyr sem oftast standa okkur lokaðar.

Hinn rómaði sviðslistahópur Quarantine á sér bækistöðvar í Manchester en hefur ferðast víða með sýningar sínar sem eiga það sameiginlegt að draga fram óvæntar hliðar á manneskjunni. 12 lokasöngvar hafa hlotið frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.

Sýningin stendur yfir í 12 tíma, aðgangur er ókeypis og áhorfendum er frjálst að koma og fara að vild. Sýningin er unnin í samstarfi við Hörpu.

Frá leikstjóra

Ein af ósýnilegu vörðunum á leið okkar yfir á fullorðinsárin er ef til vill þegar spurningin breytist út: “Hvað langar þig að verða?” í: “Hvað gerir þú?”

Að vera og gera. Fyrir mörg okkar er sjálfsmyndin að mörgu leyti samtengd vinnunni okkar, í það minnsta á meðan við sinnum henni.

Vinnan okkar í Quarantine felst í því að draga upp eins konar fjöldaportrett. Stutt og viljandi ófullkomin brot af lifandi myndum af fólki sem eru saumuð saman í eitthvað stærra, flóknara og mennskara á stærri skala. Starf okkar er að skapa aðstæður þar sem annað fólk getur sett sig á svið, í örstutta stund að minnsta kosti. Það er okkar hlutverk sem listafólks að velja hvernig við stillum upp myndarammanum sem þið horfið inn í – þess vegna reynum við að koma upp um okkur, að fletta ofan af aðferðunum okkar, til að þið sjáið hvernig við höldum á rammanum …

Og nú erum við komin til Reykjavíkur í fyrsta sinn. Við komumst snemma að því – á Zoom-fundum síðustu mánaða með hinu frábæra hátíðarteymi og á æfingum síðustu vikuna með íslensku flytjendunum þremur – að það eru nú þegar ótal tengingar á milli fólksins í þessari borg. Nánast allir sem taka þátt eru beintengdir einhverjum öðrum – þessi voru saman í leikskóla, þetta er tengdamamma þeirra, presturinn jarðsöng ömmu þeirra og svo framvegis og framvegis … Og samt gera 12 lokalög dálítið annað líka – við kröfsum okkur undir yfirborð hvunndagsins til þess að gefa innsýn í upplifun hverrar vinnandi manneskju sem kemur fram hér í dag, og afhjúpum þannig bæði hvað það er sem gerir hvert okkar einstakt og sömuleiðis mennskuna sem tengir okkur öll.

Á þessum 12 klukkustundum, rétt eins og í lífinu utan við Hörpu, munum við ef til vill uppgötva að það sem aðgreinir okkur getur auðgað okkur frekar en sundrað …

Richard Gregory 
Leikstjóri, 12 lokalög

Eftir: Quarantine
​​Hugmynd & leikstjórn: Richard Gregory
Sviðshönnun: Simon Banham
Ljósahönnun: Mike Brookes
Listakona & aðstoðarleikstjóri: Sarah Hunter
Stafræn list: Lowri Evans & Lisa Mattocks
Spurningahöfundar: Sarah Hunter, Leentje Van de Cruys & Quarantine
Dramatúrgía: Renny O’Shea, Sarah Hunter & Leentje Van de Cruys
Flytjendur: Ilmur Kristjánsdóttir, Kate Daley, Ólafur Ásgeirsson og Unnsteinn Manuel Stefánsson

video

Quarantine (UK)

Sýningin stendur yfir frá tólf á hádegi til miðnættis. Gestum er frjálst að koma og fara að vild á þeim tíma.

Ókeypis

Harpa

Aðgengi

Mjög gott hjólastólaaðgengi í Hörpu. Tónmöskvi er í miðasölu.

Auka upplýsingar um aðgengi á viðburðinum eru hér.

Stoppistöðin Harpa er næst Hörpu en einnig er stoppistöðin Lækjartorg nálægt.

Strætóleiðir á viðburð
LEIÐ 3
LEIÐ 1
LEIÐ 6
LEIÐ 11
LEIÐ 12
LEIÐ 13
LEIÐ 14