Hringferð í Smástundarsal
Listasýning sem flakkar um borgina í gámi
Ásmundarsalur flakkar um borgina með færanlega listsýningu þar sem upplifa má alltumlykjandi innsetningu þeirra Þórdísar Erlu Zoëga og Shu Yi. Umbreyttur gámur mun heimsækja fjóra staði víðsvegar um borgina þar sem gestum býðst að stíga inn, kanna rýmið í kyrrð, velta vöngum og kveikja á öllum skynfærum.
Listakonurnar deila brennandi áhuga á að skoða hvernig við skynjum rými og hér skapa þær sýningu þar sem fagurfræðileg sýn fléttast saman við frásagnir ólíkra menningarheima og úr verður leiftrandi samtal austurs og vesturs. Hringferð rýfur efnisleg mörk og hrífur gesti með sér inn í kjarna verksins.
Þórdís Erla Zoëga (1988) er íslensk listakona sem hefur sýnt víða á Íslandi og í Evrópu. Verk hennar eru knúin áfram af efnisrannsóknum og stafrænni nánd, póst-húmanisma og vísindaskáldskap. Shu Yi (1986) er fædd í Kína en býr í Reykjavík. Í listsköpun sinni vinnur hún fyrst og fremst með analóg ljósmyndun, margmiðlun og reiknirit. Shu Yi hefur lært og starfað í Beijing, London og Reykjavík. Í verkum sínum rýnir hún í margþætt landslag kraftmikilla og hverfula upplifanna.
Listrænir aðstandendur: Ásmundarsalur, Aðalheiður Magnúsdóttir, Helga Jóakimsdóttir, Ólöf Rut Stefánsdóttir, Shu Yi, Þórdís Erla Zoëga
2. júní kl. 14:00-16:00 Ásmundarsalur
4.-5. júní kl. 14:00-16:00 Ásmundarsalur
7. júní kl. 17:00-19:00 Blokkarpartý við Æsufell, Breiðholti
8.-9. júní 14:00-16:00 Æsufell, Breiðholti
14. júní kl. 17:00-19:00 Strandpartý við Strandveg, Grafarvogi
15.-16. júní kl. 14:00-16:00 Strandvegur, Grafarvogi
17. júní kl. 14:00-18:00 Garðpartý í Hljómskálagarði
Aðgengi
Viðburðurinn fer fram utandyra í almenningsrými. Gott hjólastólaaðgengi er á viðburðastöðum. Sýningin sjálf er í stórum gámum og rampur liggur upp í gámana.
Næsta strætóstoppistöð við sýninguna við Ásmundarsal heitir Sjúkrahótel. Stoppistöðin Gamla Hringbraut er einnig nærri sem og Bíó Paradís. Næsta strætóstoppistöð við sýninguna í Breiðholti heitir Æsufell. Næsta strætóstoppistöð við sýninguna í Grafarvogi heitir Vættaborgir. Næsta stoppistöð við sýninguna í Hljómskálagarðinum heitir Hallargarðurinn. Stoppistöðvarnar MR, Ráðhúsið og Lækjartorg eru einnig nærri.