Eyrarrósin 2021
36 umsóknir bárust alls um Eyrarrósina 2021 og Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 hvaðanæva af landinu. Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi.
Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Icelandair og Listahátíð í Reykjavík.
Eyrarrósarhafinn 2021
Handbendi brúðuleikhús, Hvammstanga
Handbendi var stofnað árið 2016 af leikstjóranum og brúðuleikaranum Gretu Clough og er hún jafnframt listrænn stjórnandi leikhússins. Handbendi er eina starfandi atvinnuleikhúsið á Norðurlandi vestra og eitt af sárafáum slíkum utan höfuðborgarsvæðisins.
Fjölbreytt starfsemi Handbendis byggir á bjargfastri trú á gildi listanna fyrir dreifðari byggðir en ekki síður á gildi þess sem dreifbýlið hefur uppá að bjóða fyrir listirnar.
Auk þess að framleiða brúðuleiksýningar í háum gæðaflokki, ferðast með þær um landið og á erlendar hátíðir, rekur Handbendi stúdíó þar sem áhersla er lögð á upptökur og framleiðslu á stafrænu efni af ýmsum toga. Þau hýsa gestasýningar, standa fyrir námskeiðahaldi fyrir börn og fullorðna, veita ráðgjöf og búa til brúður eftir pöntunum frá leikhúsum víða að úr Evrópu. Þá leggur leikhúsið sérstaka áherslu á að hafa frumkvæði að og leiða samfélagstengd verkefni af ýmsum toga, þar á meðal með börnum og ungu fólki.
Nýjasta skrautfjöðrin í hatt Handbendis er alþjóðleg brúðuleikhúshátíð - Hvammstangi International Puppet Festival - eða HIP Fest - sem fram fór í fyrsta sinn á síðasta ári og verður hér eftir árlegur viðburður í október.
Leikhúsið er þessa dagana að koma sér fyrir í nýju húsnæði á Hvammstanga sem er liklegt til þess að styrkja starfsemina enn frekar. Meðal annars geta þau nú boðið erlendu brúðu- og sviðslistafólki til listamannadvalar/residensíu í lengri eða skemmri tíma.
Greta Clough hefur sýnt og sannað að hún hefur djúpstæðan skilning á eðli listastarfsemi í fámennu byggðarlagi. Rótarkerfi Handbendis nær djúpt inn í samfélagið í Húnaþingi vestra, til áhugaleikfélaga á svæðinu, inn í skólana og atvinnulífið, en teygir sig líka inn í íslenskt sviðslista-umhverfi og út í heim. Starfsemi Handbendis hefur hækkað gæðaviðmið í menningarlífi svæðisins og leikhúsið á stóran þátt í því að ánægja með menningarframboð í heimabyggð mælist nú með því hæsta á landsvísu í Húnaþingi vestra.
Á árinu 2019 náðu viðburðir Handbendis til yfir 200 þúsund manns þegar allt er talið. Og á heimsfaraldursárinu mikla 2020 náðu þau til yfir 70 þúsund manns.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021
Boreal Screendance Festival, Akureyri
Boreal Screendance Festival er alþjóðleg og fór í fyrsta sinn fram í nóvember 2020 í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri. Stofnandi Boreal og listrænn stjórnandi er Yuliana Palacios.
Boreal er vettvangur til kynningar á vídeódansverkum og hvetur til tenginga og samtarfs milli innlends og erlends listafólks. Á fyrstu hátíðinni í fyrra voru sýnd 28 verk eftir 18 listamenn víða að úr heiminum. Stefnt er að enn umfangsmeiri hátíð í nóvember á þessu ári þegar hátíðin tekur yfir fleiri rými í Listagilinu og mun standa yfir í níu daga.
Fyrsta Boreal hátíðin sýndi fram á að áhugi á dansi og dansmyndum er til staðar á Akureyri. Þá býr og starfar fjölbreytt flóra vídeólistafólks á svæðinu. Skipuleggjendur leggja áfram áherslu á að byggja á þessum góða grunni og skapa framtíðarverkefni með ríkri aðkomu listafólks úr heimabyggð.
Á komandi árum stendur til að halda námskeið fyrir ungmenni og áhugafólk í tengslum við hátíðina og auka þannig beina þátttöku almennings í verkefninu. Þá vilja skipuleggjendur sýna á fleiri stöðum á Norðurlandi, svo sem á Siglufirði, Dalvík, Mývatni og Kópaskeri.
IceDocs - Iceland Documentary Film Festival, Akranesi
Iceland Documentary Film Festival eða IceDocs er alþjóðleg heimildamyndahátíð á Akranesi sem stofnuð var árið 2019. Hátíðin verður haldin í þriðja sinn 23. til 27. júní næstkomandi og verður að þessu sinni boðið samhliða upp á dagskrá fyrir áhorfendur í sal og á netinu.
Stofnendur IceDocs eru þau Ingibjörg Halldórsdóttir, Heiðar Mar Björnsson og Hallur Örn Árnason.
IceDocs hefur þá sérstöðu að að vera eina alþjóðlega kvikmyndahátíð landsins sem sýnir eingöngu skapandi heimildamyndir. Á hátíðinni er áhorfendum boðið upp á rjómann af þeim heimildamyndum sem koma út í heiminum auk þess sem boðið er upp á fjölda sérviðburða. Þar má nefna tónleika, kynningu á íslenskum kvikmyndaarfi, fjölskyldudagskrá, götumarkaði, ratleik um Akranesbæ, umræðuviðburði, alþjóðlegt kvikmyndanámskeið, uppistandskvöld og kynningarferð um Vesturland fyrir alþjóðlega gesti hátíðarinnar.
Yfirlýst markmið aðstandenda IceDocs er að gera Akranes að að eftirsóknarverðum viðkomustað erlends heimildamyndagerðarfólks og að hvetja til aukins samstarfs erlendra og íslenskra heimildamyndaframleiðanda. Hátíðarhaldarar vinna nú að því að stofna til tengsla við sambærilegar hátíðir á erlendum vettvangi sem mun án efa styðja við þessi markmið.
Röstin gestavinnustofa, Þórshöfn
Röstin er tilraunakennd gestavinnustofa fyrir listafólk á Þórshöfn á Langanesi. Að baki verkefninu standa Auður Lóa Guðnadóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir og Starkaður Sigurðarson sem hafa ýtt því úr vör og fylgt eftir af mikilli ástríðu.
Vinnustofudvölin í Röstinni er tvær vikur að sumri og verður haldin í þriðja sinn með formlegum hætti í sumar. 8–10 listamönnum úr öllum áttum er boðin þátttaka í hvert sinn og er gisting og vinnuaðstaða þeim að kostnaðarlausu. 40 sóttu um að taka þátt í ár og því er ljóst að mun færri komast að en vilja.
Röstin er vettvangur fyrir fjölbreyttan hóp listamanna til að njóta andrýmis, vinna að listsköpun sinni, kynnast öðru listafólki, tengjast samfélaginu á Langanesi, og auðga um leið bæjarlífið með uppákomum fyrir íbúa.