30. maí -14. júní 2026

Aðgengis- og inngildingarstefna Listahátíðar í Reykjavík

2023-2026
Markmið Listahátíðar er að efla menningar- og listalíf á Íslandi, almenningi til heilla. [...] Sérstaka áherslu ber að leggja á inngildingu, nýsköpun og þá þætti íslenskrar menningar sem skapa henni sérstöðu í samfélagi þjóðanna.
Skipulagsskrá Listahátíðar í Reykjavík, 2. gr.

Leiðarljós Listahátíðar í Reykjavík er að listir og menning séu ekki forréttindi fárra heldur réttur allra.

Allt frá árinu 2017 hefur hátíðin miðjusett aðgengi og inngildingu í allri starfsemi sinni og hefur verið í fararbroddi í þessum málaflokki í íslensku menningarlífi. Með sérstakri stefnu um aðgengi og inngildingu undirstrikar hátíðin áframhaldandi skuldbindingu sína og ábyrgð í þessum efnum og setur sér skýr markmið til nánustu framtíðar.

Hvert skref sem stigið er til að auka aðgengi að listum eflir og styrkir íslenskt menningarlíf. Að allt fólk fái notið og geti tekið virkan þátt í listum eykur gæði, mikilvægi og erindi þeirra.

Aðgengi og inngilding verða ekki aðskilin frá neinum þætti starfsemi Listahátíðar heldur eru samofin henni og hafa áhrif á allt frá ráðningu starfsfólks til markaðs- og kynningarstarfs, listrænnar dagskrárgerðar, framkvæmdar sjálfrar hátíðarinnar og skrásetningar á henni.

Tungumálið er í stöðugri þróun og orða- og hugtakanotkun úreldist fljótt. Stefna þessi og aðgerðaráætlun er lifandi plagg sem verður endurskoðað reglulega svo það endurspegli sem best samfélagsleg viðmið hvers tíma og sýni öllum þjóðfélagshópum þá virðingu sem þeir eiga skilið.

Aðgengi
Með aðgengi er átt við að allir þjóðfélagshópar eigi greiða leið að hátíðinni, geti tekið fullan þátt bæði sem listafólk og gestir og geti notið viðburða Listahátíðar á eigin forsendum. Aðgengi felur í sér að fjarlægja líkamlegar, fjárhagslegar, samfélagslegar og menningarlegar hindranir.

Í stefnunni er talað um aðgengi í víðum skilningi. Það felur í sér, en takmarkast þó ekki við:

  • aðgengi fatlaðs fólks
  • aðgengi fólks af ólíkum uppruna og hörundslit
  • aðgengi fólks óháð efnahagsstöðu.
  • aðgengi fólks óháð kyni, kynvitund, kyneinkennum og kynhneigð.
  • aðgengi fólks óháð búsetu
  • aðgengi fyrir fólk á öllum aldri

Inngilding

Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða margbreytileika mannlífsins og gera ráð fyrir honum í allri starfsemi hátíðarinnar, meðal annars með markvissum stuðningi og sértækri upplýsingagjöf til þeirra sem þess þurfa. Listahátíð stendur fyrir jafnrétti og jafnræði og á Listahátíð er allt fólk samþykkt eins og þau eru. Á hátíðinni eru öll hvött til virkrar þátttöku og áhersla lögð á að hátíðin teygi sig út til jaðarsettra hópa.

Verkefnaval og dagskrárgerð

Auglýst er eftir verkefnum í gegnum opið kall fyrir hverja hátíð.
Opið kall tryggir fjölbreyttara verkefnaval og gefur listafólki úr ólíkum hópum færi á að kynna verkefni sín fyrir stjórnendum.

  • Orðalag og umsóknarferli opins kalls er skýrt og undirstrikar að öllum sé velkomið að sækja um.
  • Opnu kalli er komið á framfæri með ýmsum leiðum, á fleiri en einu tungumáli og út fyrir hefðbundin mengi listafólks.
  • Umsækjendum sem þess þurfa er boðið upp á stuðning við umsóknarferlið, til dæmis með samtölum í síma eða með fundi.
  • Umsóknareyðublað verður endurskoðað fyrir opna kallið 2025 til þess að greina megi betur bakgrunn umsækjenda með það að markmiði að greina hvaða hópa kallið virðist ekki ná til, og bregðast við ef nauðsyn krefur.

Ólíkir hópar hafa aðkomu að dagskrárgerð.
Með aðkomu fleiri að dagskrárgerð hátíðarinnar, og þá ekki síst jaðarsettra hópa, víkkar sjóndeildarhringurinn og fjölbreytileiki eykst. Þegar kemur að málefnum jaðarsettra hópa vinnur Listahátíð samkvæmt hugmyndinni „ekkert um okkur án okkar“.

  • Fjölbreyttir hópar eiga beina aðkomu að dagskrárgerð hátíðarinnar, meðal annars með sértækum verkefnum eins og yfirtökum í Klúbbi Listahátíðar.
  • Listrænn stjórnandi leitar ráðgjafar hjá fulltrúum ólíkra hópa, þar með talið jaðarsettra hópa. Greitt er fyrir slíka ráðgjöf.

Sterk fjölskyldudagskrá er á hverri hátíð.
Börn og ungmenni eiga rétt á aðgengi að fyrsta flokks menningarviðburðum sem eru sérstaklega hugsaðir fyrir þau.

  • Á hverri hátíð er úrval viðburða sem eru sérstaklega ætlaðir börnum og ungmennum.
  • Ókeypis aðgangur er að hluta fjölskylduviðburða á hverri hátíð.

Listafólk sem kemur fram á Listahátíð endurspeglar fjölbreytileika mannflórunnar.

Sýnileiki ólíkra hópa í listum auðgar menningarlandslagið, ögrar staðalmyndum og skapar réttlátara samfélag.

  • Gætt er að kynjaskiptingu listafólks á hátíðinni.
  • Gætt er að sýnileika fatlaðs fólks, hinsegin fólks, kynja, fólks af mismunandi hörundslit (PoC), innflytjenda og annarra jaðarsettra hópa á viðburðum hátíðarinnar.
  • Listrænn stjórnandi leitar sérstaklega að verkefnum erlendis frá sem eru sannarlega inngildandi og geta veitt innblástur inn í íslenskt listalíf.

Listahátíð teygir sig út í samfélagið.

Ekki eiga allir þjóðfélagshópar möguleika á að sækja listviðburði í höfuðborginni og/eða í hefðbundnum viðburðarýmum. Listahátíð grípur til sértækra aðgerða til að ná til þeirra hópa.

  • Á hverri Listahátíð eru viðburðir utan miðborgarinnar og í almannarými.
  • Á hverri Listahátíð er boðið upp á nokkra viðburði utan höfuðborgarsvæðisins.
  • Þegar mögulegt er býður Listahátíð upp á viðburði á dvalarheimilum og öðrum stofnunum þaðan sem fólk á ekki heimangengt.
Metnaðarfull dagskrá Listahátíðar endurspeglar fjölbreytileika mannlífsins hverju sinni og tekur mið af ólíkum þörfum listafólks og áhorfendahópa. Farnar eru fjölbreyttar leiðir að verkefnavali sem tryggja breidd og listrænan slagkraft dagskrárinnar.

Framkvæmd hátíðar

Ávallt er hugað að aðgengi í víðum skilningi við framkvæmd viðburða.
Þau sem vilja eiga að geta notið viðburða Listahátíðar og starfsfólk hátíðarinnar leggur sig fram um að taka tillit til ólíkra þarfa áhorfendahópa og listafólks.

  • Viðburðastaðir Listahátíðar eru alltaf valdir með aðgengi hreyfihamlaðra í huga. T.a.m. er óásættanlegt að aðgengi fatlaðra gesta sé einungis um hliðar- eða bakdyr eða að fatlað listafólk geti ekki nýtt aðstöðu baksviðs eða komist upp á svið.
  • Tekið er sérstakt tillit til þarfa skynsegin einstaklinga á völdum viðburðum, meðal annars með því að bjóða upp á rólegar sýningar og veita nauðsynlegar upplýsingar fyrirfram um innihald og form viðburða. Þessar upplýsingar verða unnar í samráði við hagsmunasamtök skynsegin fólks.
  • Í Klúbbi Listahátíðar er boðið upp á rólegt rými, svokallað skynrými, þar sem gestir og listafólk sem þess þurfa geta kúplað sig út úr erli og áreiti um stund.
  • Á stærri viðburðum og í Klúbbi Listahátíðar er starfsfólk á vegum Listahátíðar viðstatt, greinilega merkt, sem veitt getur gestum aðstoð og upplýsingar eftir þörfum.

Túlkun og textun er á eins mörgum viðburðum hátíðarinnar og við verður komið.
Tungumálakunnátta á ekki að vera fyrirstaða þess að njóta viðburða á Listahátíð.

  • Á hverri hátíð er táknmálstúlkun á opnunarathöfn sem og á völdum viðburðum.
  • Viðburðir á erlendum tungumálum eru textaðir á íslensku þegar því verður við komið.
  • Valdir viðburðir á íslensku eru textaðir á pólsku og/eða á ensku til þess að mæta þörfum innflytjenda og erlendra gesta.
  • Boðið er upp á sjónlýsingar á völdum sýningum á hátíðinni.

Stór hluti dagskrár Listahátíðar er ókeypis og þannig aðgengilegur efnaminni hópum. Miðaverði er almennt stillt í hóf.
Efnahagur fólks á ekki að koma í veg fyrir að það geti notið viðburða á Listahátíð.

  • Að minnsta kosti fjórðungur viðburða á aðaldagskrá Listahátíð er án aðgangseyris.
  • Á hverri hátíð er hluti fjölskyldudagskrár ókeypis.
  • Boðslistum er haldið í lágmarki hjá Listahátíð og aldrei gripið til þess að bjóða fagfólki frímiða eða afslátt á síðustu stundu til þess að fylla tóm sæti. Þetta er gert til þess að tryggja jafnræði.
  • Allir viðburðir í Klúbbi Listahátíðar eru ókeypis.
  • Miðaverði á hátíðina er almennt stillt í hóf. Þegar ekki verður hjá því komist að hafa hátt miðaverð skal ávallt sjá til þess að ákveðið hlutfall miða standi til boða á mun lægra verði.
  • Listahátíð leitar eftir samstarfi við fyrirtæki um að greiða niður miða fyrir þau sem á þurfa að halda.

Kynning á dagskrá Listahátíðar tekur mið af ólíkum hópum.
Í fjölbreyttri dagskrá ættu sem allra flest að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á hátíðinni. Mikilvægt er að kynning á viðburðum rati til réttra hópa.

  • Kynning á heildardagskrá Listahátíðar er aðgengileg á íslensku, auðskilinni íslensku, ensku, pólsku og táknmáli á vefsíðu hátíðarinnar.
  • Við hönnun heimasíðu hátíðarinnar er aðgengi haft í fyrirrúmi, bæði hvað varðar miðlun upplýsinga og útlit.
  • Orðalag í öllu kynningarefni er inngildandi og haft eins kynhlutlaust og mögulegt er.
  • Skýrum upplýsingum um aðgengi á viðburðastöðum er miðlað í prentuðu kynningarriti hátíðarinnar sem og á heimasíðu.
  • Upplýsingum um almenningssamgöngur á viðburðastaði er miðlað á skýran hátt í prentuðu kynningarefni og á netinu.
  • Fjölskyldudagskrá er dregin sérstaklega fram í kynningu á hátíðinni og henni komið á framfæri þar sem líklegt er að hún nái til markhópsins.
  • Upplýsingum um ókeypis viðburði á Listahátíð er miðlað í almenningsrýmum, bókasöfnum og víðar til þess að ná til breiðs hóps.
  • Þróaðar verða leiðir til þess að kynna viðburði hátíðarinnar fyrir hópum með innflytjendabakgrunn og öðrum jaðarsettum hópum. Komið verður upp neti tengiliða inn í valda hópa sem vinna með hátíðinni að miðlun upplýsinga.

Listahátíð setur aðgengi og inngildingu á dagskrá.
Með virku samtali um aðgengi og inngildingu á hátíðinni sjálfri og í samstarfi við aðrar menningarstofnanir, listafólk og hópa sem málið varðar getur Listahátíð haft jákvæð áhrif langt út fyrir hátíðina sjálfa.

  • Listahátíð setur málefni aðgengis og inngildingar á dagskrá á hátíðinni, meðal annars með sértækum viðburðum í Klúbbi Listahátíðar og í fjölmiðlaumfjöllun.
  • Listahátíð setur aðgengi og inngildingu í forgang allt frá upphafi samtals við samstarfsstofnanir og listafólk. Hátíðin hvetur þannig samstarfsaðila til að standa við skuldbindingar hennar í þessum efnum og styður við þá til þess að ná þeim markmiðum.  

Skrásetning heimilda um Listahátíð í Reykjavík er í höndum fjölbreytts hóps.
Ljósmyndun, textaskrif og önnur skrásetning á hátíðinni endurspeglar alltaf ákveðið sjónarhorn. Mikilvægt er að gæta þess að hópurinn sem að því kemur sé ekki of einsleitur og að farnar séu fjölbreyttar leiðir til skrásetningar á sögu hátíðarinnar.

  • Ólíkir einstaklingar eru fengnir til að annast myndatökur og aðra skrásetningu hátíðarinnar svo að fjölbreytt sjónarhorn fáist.
  • Leitað er leiða til að skrásetja heimildir á sem fjölbreyttastan hátt og nýta ólíka miðla: Ljósmyndun, kvikmyndun, textaskrif af ýmsu tagi, hljóðupptökur, viðtöl o.fl.
  • Gagnasafn Listahátíðar sem sett var upp árið 2020 verður endurskoðað með það í huga hvort flokkun upplýsinga og uppsetning sé inngildandi og bætt úr þar sem þurfa þykir.
Aðgengi og inngilding eru höfð að leiðarljósi við alla framkvæmd Listahátíðar í Reykjavík. Listafólki, áhorfendum og samstarfsaðilum er mætt á eigin forsendum og ætíð leitast við að öll fái notið sín.

Innra starf

Við ráðningu starfsfólks er lögð áhersla á að setja saman teymi sem endurspeglar fjölbreytileika mannlífsins að eins miklu marki og hægt er.
Fjölbreyttur starfshópur býður upp á víðara sjónarhorn og er líklegri til að ná árangri.

  • Allar stöður hjá Listahátíð eru auglýstar lausar til umsóknar þegar við á.
  • Orðalag atvinnuauglýsinga er haft inngildandi og þannig að það höfði til breiðs hóps. Matskvarðar taka einnig tillit til fjölbreytileika umsækjenda.
  • Stöður eru auglýstar á viðeigandi miðlum hverju sinni til þess að kasta sem stærstu neti og ná út fyrir hefðbundin mengi lista- og menningarlífsins.

Starfsfólk fær stuðning til þess að fylgja stefnu um aðgengi og inngildingu.
Til þess að geta mætt væntingum og þörfum gesta er mikilvægt að starfsfólk Listahátíðar búi yfir viðeigandi þekkingu og kunnáttu.

  • Fyrir hverja hátíð er starfsfólki boðið upp á 1-2 námskeið eða fyrirlestra sérfræðinga sem ætlað er að efla það til þess að fylgja eftir stefnu þessari. (Dæmi: Fræðsla frá Samtökunum 78, námskeið um aðgengi og þarfir skynsegin einstaklinga o.s.frv.)

Aðgengisfulltrúi er tilnefndur úr starfsmannahópi fyrir hverja hátíð.
Sú starfsmanneskja sem best er til þess bær úr teymi hátíðarinnar tekur að sér hlutverk aðgengisfulltrúa.

  • Fulltrúinn fer yfir aðgengi að hverjum viðburðastað, þar með talið Klúbbi Listahátíðar, greinir mögulegar áskoranir og leitar leiða til að mæta þeim.
  • Í samstarfi við aðra verkefnastjóra sækir fulltrúinn upplýsingar um þarfir listafólks og finnur leiðir til þess að mæta þeim.
  • Aðgengisfulltrúi hefur umsjón með þróun og endurskoðun gátlista sem verkefnastjórar nota til þess að greina verkefni og þarfir listafólks og gesta út frá aðgengissjónarmiði. Sérstakur gátlisti verður þróaður í samstarfi við kynningarstjóra fyrir það hvernig og hvaða aðgengisupplýsingum er miðlað á heimasíðu og í kynningarefni.
  • Starfsfólk getur leitað sérstaklega til fulltrúans og fengið viðeigandi ráðgjöf eftir þörfum.

Áætlun Listahátíðar um einelti og áreiti er endurskoðuð fyrir hverja hátíð með aðgengi og inngildingu í huga og kynnt fyrir starfsfólki þegar það kemur til starfa.
Listahátíð í Reykjavík er heilbrigður vinnustaður þar sem hvorki líðst einelti, kynferðisleg/kynbundin áreitni, ofbeldi né annað ótilhlýðilegt háttalag í garð starfsfólks.

Sett verður í forgang að finna skrifstofurými fyrir Listahátíð þar sem aðgengi er til fyrirmyndar.
Núverandi skrifstofurými hátíðarinnar við Lækjargötu er ekki aðgengilegt og því er mikilvægt að flytja þaðan um leið og annað heppilegt húsnæði finnst.

Ráðgjafahópur um aðgengi og inngildingu verður skipaður fyrir hverja hátíð.
Fulltrúar í ráðgjafahópi eru valdir úr röðum hagsmunafélaga og hópa sem standa vörð um réttindi fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa.

  • Ráðgjafahópur tekur þátt í að endurskoða stefnu og aðgerðaráætlun þessa fyrir hverja hátíð og haft er við hann samráð um skref sem má taka til úrbóta. Greitt er fyrir slíka ráðgjöf.
Starfsfólk Listahátíðar er fjölbreyttur hópur sem er vel upplýstur um aðgengi og inngildingu og býr við starfsaðstæður sem henta hverju þeirra. Öll sem starfa hjá Listahátíð eru metin að verðleikum og á þau er hlustað.

Gildistími og endurskoðun

Stefnan gildir frá 2023 til 2026.

Aðgerðaáætlun er endurskoðuð árlega að hausti.

Innleiðing stefnunnar er á ábyrgð stjórnenda Listahátíðar en hún er samþykkt af stjórn hátíðarinnar sem hefur eftirlit með að henni sé fylgt.

Ef þú hefur ábendingar varðandi Aðgengis- og inngildingarstefnu Listahátíðar sendu þá tölvupóst á artfest@artfest.is eða hringdu í síma 5612444.