Til baka
Til baka
#reykjavikartsfestival2018 #listahatid2018
14
febrúar

Ferskir vindar, Rúllandi snjóbolti og Skjaldborg tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Þrjú menningarverkefni á landsbyggðinni hafa hlotið formlega tilnefningu til Eyrarrósarinnar 2018. 

Eyrarrósin er viðurkenning sem árlega er veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík.  Alls bárust 33 umsóknir um viðurkenninguna í ár, hvaðanæva að af landinu. Valin voru 6 verkefni á Eyrarrósarlistann en nú er búið að þrengja hringinn velja þau 3 verkefni sem eru tilnefnd til sjálfrar Eyrarrósarinnar. 

Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé þannig að það er til mikils að vinna, en önnur tilnefnd verkefni hljóta 500 þúsund króna verðlaun. Afhending viðurkenninganna fer fram 1. mars næstkomandi í Neskaupstað, heimabæ Eistnaflugs, handhafa Eyrarrósarinnar 2017. Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda viðurkenninguna. 

Tilnefnd eru:

Ferskir vindar, alþjóðleg listahátíð í Garði
Listahátíðin Ferskir vindar er alþjóðleg hátíð sem haldin hefur verið í Garði annað hvert ár frá árinu 2010. Þangað er boðið hverju sinni 40-50 listamönnum úr öllum listgreinum og af fjölmörgum þjóðernum. Erlendir listamenn dvelja og vinna í Garði í um fimm vikur og sýna þar afrakstur sinn. Aðstandendur Ferskra vinda leitast við að koma á sem nánustum tengslum við íbúa bæjarfélagsins meðal annars með samstarfi við skólana með ýmsum uppákomum og beinni þátttöku nemenda. Öll dagskrá hátíðarinnar er ókeypis og opin almenningi, s.s.  kynningar á listafólkinu og verkum þeirra, opnar vinnustofur, myndlistarsýningar, gjörningar, tónleikar o.fl.    https://fresh-winds.com/

Rúllandi snjóbolti, Djúpavogi
Samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti verið haldin árlega frá árinu 2014 í gömlu Bræðslunni á Djúpavogi og hefur þegar markað sér sess í íslensku menningarlífi. Um er að ræða metnaðarfullt samstarfsverkefni Djúpavogshrepps og CEAC (Chinese European Art Center). Á sýningunni síðastliðið sumar áttu 31 listamaður verk á sýningunni, íslenskir og erlendir.  Aðsókn eykst ár frá ári en síðasta sumar er talið að allt að 10 þúsund manns hafi séð sýninguna á Djúpavogi.  https://www.facebook.com/rullandisnjobolti

Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildarmynda, Patreksfirði
Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildarmynda er eina kvikmyndahátíðin á landinu sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildarmyndir. Allt frá árinu 2007 hefur hátíðin verið haldin um hvítasunnuhelgina ár hvert á Patreksfirði og leiðir saman reynslubolta í faginu, byrjendur og hinn almenna áhorfanda. Þannig stuðlar hátíðin í samvinnu við heimamenn að skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.  http://skjaldborg.com/